top of page

Drengir

Kynþroski hefst oftast á aldrinum 9 til 15 ára. Það er einstaklingsbundið hvenær kynþroskinn hefst en það stjórnast mest af erfðum en einnig getur aðbúnaður einstaklingsins haft áhrif á kynþroskann. Flestir drengir ná fullum kynþroska á aldrinum 15 til 18 ára, en eftir það eiga þeir samt eftir að hækka. Merki um að líkaminn sé að þroskast má sjá þegar hár fara að vaxa á kynfærum, undir höndum, á fótleggjum, handleggjum, bringu og í andliti.

Einnig breytist röddin á þessum tíma og dýpkar. Það er kynhormón karla, testósterón sem veldur þessum breytingum í röddinni og öðrum breytingum sem verða á líkamanum. Barkakýlið stækkar, inní því eru raddbönd sem lengjast og þykkna. Það er talað um að drengir fara í mútur þegar röddin þeirra breytist og verður oft skræk, rám eða djúp. Svitakirtlarnir verða virkari á kynþroskaárunum einnig er svæði undir geirvörtunni sem getur þykknað örlítið á svipaðan hátt og þegar stelpur fá brjóst. Þetta er þó tímabundið og gengur til baka. Kynfærin gera körlum kleift að njóta kynlífs með sjálfum sér og/eða öðrum (Margrét Héðinsdóttir o.fl., e.d.). Það er hægt að lesa meira um kynþroska drengja á heimasíðunni heilsuvera.is, það er hægt að nálgast hana með því að ýta hér.

Ytri kynfæri

Við kynferðislega örvun fer blóð fram í typpið og það harðnar (bólgnar). Þá er talað um að mönnum rísi hold, eða standpínu. Inn í typpinu er þvagrásin sem hefur það hlutverk að flytja þvag og sæði út úr líkamanum. 

Forhúð kallast lausa húðin sem er fremst á typpinu, það er hefð í sumum menningarsamfélögum að skera forhúðina af og kallast þetta umskurður.

Pungurinn er poki utan um eistun. Við kynþroskann dökknar pungurinn og skinnið á honum verður krumpað (Margrét Héðinsdóttir o.fl., e.d.).

Innri kynfæri

Eistun eru tvö og eru þau staðsett í pungnum. Eistun eru eins og egg í laginu og fullþroska verða þau um 5 cm á lengd og 3 cm á breidd. Á kynþroskaárunum byrja eistun að framleiða sáðfrumur sem eru kynfrumur karla, einnig framleiða þau testósterón (kynhormón karla). 

Eistnalyppur liggja ofan á hvoru eista. Þeirra hlutverk er að þroska sáðfrumurnar og hafa myndast í eistunum.

Sáðrás flytur sáðfrumu frá eistum út úr typpi við sáðlát.

Sáðblaðra býr til næringarríkan vökva sem gerir sáðfrumum kleift að synda út úr líkamanum. 

Blöðruhálskirtill framleiðir vökva með næringarefnum fyrir sáðfrumur. Stækkar með aldrinum (Margrét Héðinsdóttir o.fl., e.d.). Hægt er að lesa meira um innri og ytri kynfæri á heimasíðunni heilsuvera.is, það er hægt að nálgast hana með því að ýta hér.

Mynd. 5

© 2023 by Name of Site. Proudly created with Wix.com

  • Facebook Social Icon
  • Twitter Social Icon
  • Google+ Social Icon
bottom of page